Ásgeir Jónsson efnahagsráðgjafi Gamma segir að áformaðar skuldaniðurfellingar sem ríkisstjórnin kynnti um síðustu helgi muni hafa áhrif á fasteignamarkaðinn. „Því þó að framkvæmd aðgerðanna sé flókin þá á fólk ekki í erfiðleikum með reikna það út sjálft í grófum dráttum hversu mikið það fær afskrifað.” Að mati Ásgeirs munu áhrifin af leiðréttingaraðgerðum ríkistjórnarinnar birtast mjög fljótt þar sem væntingar fólks um þróun markaðarins skipti miklu máli.

„Margir hafa setið á sér í einhvern tíma sökum óvissu um skuldamálin. Nú þegar áætlunin er ljós er líklegt að það hafi strax áhrif á fasteignamarkaðinn, bæði hvað varðar veltu og verð,” segir Ásgeir. Hann bendir á að tímasetning aðgerðanna skipti einnig miklu máli. „Ef ráðist hefði verið í þessa aðgerð til dæmis fyrir fimm árum síðan hefðu áhrifin á fasteignamarkaðinn eflaust verið fremur lítil. En í dag er markaðurinn þegar farinn að taka við sér og aðgerðirnar munu ýta undir þá hækkunarbylgju sem þegar er byrjuð að rísa. Raunar má búast við að einhvers konar keðjuverkun hefjist, eins og ávallt þegar verð hækkar á fasteignamarkaði, að aukin eftirspurn hækkar verðið og skapar aukið eigið fé fyrir alla fasteignaeigendur og hrindur þannig af stað nýjum fasteignakaupum. Og svo koll af kolli. Mjög líklega munu aðgerðirnar verða til þess að skapa töluvert nýtt eigið fé hjá fólki – bæði með lækkun skulda og hækkun fasteignaverðs – og það gæti síðan hæglega leitað út í einkaneysluna.”

Ásgeir bendir á að þó að einungis hluti heimila myndi nýta sér aukið veðrými til gírunar og aukinnar lántöku hefði það engu að síðar mikil áhrif á fasteignamarkaðinn. „Þó að ekki færu nema 10-20% heimila þá leiðina þá erum við að tala um 10-20 þúsund heimili. Á sama tíma er ljóst að byggingariðnaður hefur verið í algerri ládeyðu á síðustu fimm árum og framboð af nýju húsnæði hefur þorrnað upp. Það er því hætta á því á næstu 2-3 árum að veruleg misvíxlun skapist á milli framboðs og eftirspurnar með tilheyrandi verðhækkunum. Það sem heldur þó aftur af fasteignamarkaðinum er að kaupmáttur heimilanna lækkaði töluvert eftir gengisfallið 2008 og hefur í raun staðið í stað á síðustu árum. Lágur kaupmáttur mun því halda aftur af hækkun fasteignaverðs,” segir Ásgeir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .