*

laugardagur, 15. maí 2021
Innlent 14. apríl 2021 10:22

Mikil ásókn en takmarkað framboð

Mikil ásókn í íbúðarhúsnæði ásamt takmörkuðu framboði einkennir íbúðamarkaðinn um þessar mundir, að sögn HMS.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Mikil ásókn í íbúðarhúsnæði ásamt takmörkuðu framboði einkennir íbúðamarkaðinn um þessar mundir og litar nær allar tölur tengdar honum. Velta á fasteignamarkaði sé enn með mesta móti, miðað við árstíma, þó nokkuð hafi dregið úr umsvifum frá því í haust. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu HMS um húsnæðismarkaðinn.

Í skýrslunni segir að útgefnir kaupsamningar í febrúar, fyrir stök íbúðaviðskipti, hafi alls verið 1.048 talsins sem sé um 9,7% meira en í janúar, en sé litið á febrúar í fyrra þá hafi aukningin numið um 22% milli ára.

Á síðustu 12 mánuðum hafi dregið úr fjölda íbúða til sölu í öllum landshlutum nema á Norðvesturlandi þar sem þeim hafi fjölgað um 24,1%, en fækkunin hafi verið langmest á höfuðborgarsvæðinu, eða um 58,4%.

„Sé miðað við vísitölu íbúðaverðs mældist tólf mánaða hækkun á höfuðborgarsvæðinu 7,5% í febrúar miðað við 7,6% í janúar. Væntingar um hækkun fasteignaverðs fara vaxandi, en samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Zenter framkvæmdi fyrir HMS taldi 17,1% aðspurðra að fasteignaverð myndi hækka töluvert í sínu sveitarfélagi á næstu 12 mánuðum samanborið við 10,8% þegar spurningin var fyrst höfð með í nóvember síðastliðnum," segir í skýrslu HMS.

Leiga fer lækkandi

Tólf mánaða breyting vísitölu HMS fyrir leiguverð á höfuðborgarsvæðinu gefi vísbendingu um að leiguverð sé farið að lækka nokkuð meira en áður og hafi mælst -2,6% í febrúar, en vísitalan lækki um 1,2% á milli mánaða. Tólf mánaða breyting vísitölunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi mælst neikvæð síðan í október á síðasta ári.

„Hlutfall þeirra sem telja það öruggt eða líklegt að þeir verði á leigumarkaði að hálfu ári liðnu eykst á milli mælinga, úr 14,4% í 15,8%. Þetta er hlutfall af heildinni og er hærra en hlutfall þeirra sem segjast nú þegar vera á leigumarkaði. Þetta gæti því verið vísir um að einhver fjölgun muni eiga sér stað á leigumarkaðnum eftir hálft ár. Líklegt er að hluti þeirra sem býr í foreldrahúsum færi sig yfir á leigumarkað á næstu mánuðum, sérstaklega í ljósi þess að leiguverð fer lækkandi á höfuðborgarsvæðinu," segir í skýrslunni.

Íbúðum í byggingu fækkað um 20%

Talning Samtaka iðnaðarins leiði í ljós 20% fækkun íbúða í byggingu á landinu öllu miðað við sama tíma í fyrra, en mestur sé samdrátturinn á íbúðum sem eru á byggingarstigi 4 og 5, eða 23%. Samdrátturinn mælist mestur á höfuðborgarsvæðinu, en eins og stendur séu um 3.523 íbúðir í byggingu á svæðinu sem sé um 21% minna en fyrir ári síðan er 4.452 íbúðir voru í byggingu.

„Þrátt fyrir samdrátt í fjölda íbúða í byggingu má greina ýmis jákvæð teikn á lofti um að byggingarmarkaðurinn sé farinn að taka aðeins við sér. Fjöldi íbúða í byggingu á fyrstu byggingarstigum á höfuðborgarsvæðinu í mars fjölgaði um 10% frá hausttalningunni. Miðað við nýjustu tölur um fjölda starfandi í byggingariðnaði sem ná fram í desember 2020 dró töluvert úr fækkun starfandi í greininni frá vori 2020 en hins vegar dregur aðeins úr innflutningi á byggingarhráefnum eftir töluverða aukningu á seinni hluta ársins. Það gæti hins vegar breyst á næstu mánuðum þar sem fjöldi krana í notkun hefur aukist töluvert á síðustu tveimur mánuðum ásamt því að nýskráningum fyrirtækja í greininni snarfjölgar," segir í skýrslu HMS.