Óhætt er að segja að viðbrögð við auglýsingu Hveragerðisbæjar í desember síðastliðnum um lóðir lausar til úthlutunar hafi vakið sterk viðbrögð. Í heildina voru auglýstar lóðir undir 65 íbúðar einingar en þar sem hverri raðhúsalóð er úthlutað í einu lagi er í raun aðeins um 33 úthlutanir að ræða. Eftirspurnin er margföld því alls hafa borist nálægt 200 umsóknir í lóðirnar. Því blasir við að lóðaskortur muni aftur verða staðreynd í Hveragerði strax í kjölfar úthlutunar bæjarráðs sem mun fara fram nú í janúar.

Gatnagerð er þegar hafin við umræddar lóðir og miðað er við að henni ljúki fyrir 1. júní næstkomandi og þá verð lóðirnar byggingarhæfar. Orri Hlöðversson bæjarstjóri segir í frétt á heimasíðu Hveragerðisbæjar að menn hafi undanfarna mánuði fundið fyrir auknum áhuga á lóðum í bæjarfélaginu en fæstir hafi þó átt von á þeim viðbrögðum sem orðið hafa við auglýsingunni í desember."

"En þessi viðbrögð eru í takti við annað sem við höfum verið að upplifa hér í Hveragerði undanfarin misseri. Sú mikla uppbygging sem er að eiga sér stað hér um þessar mundir er í fullu samræmi við markmið bæjarstjórnarinnar að fjölga hér íbúum og ná þannig fram hagkvæmri rekstrareiningu til að standa undir þeirri miklu fjárfestingu sem ráðist hefur verið í undanfarin ár á vegum Hveragerðisbæjar," segir Orri. Hann segir ennfremur erfiðan hjalla nú að baki í fjárfestingu í grunnþjónustunni og allar forsendur til staðar í bæjarfélaginu til að mæta frekari fjölgun íbúa.