Velta í dagvöruverslun dróst saman um 1.3% á föstu verðlagi í október miðað við sama mánuð í fyrra.

Á breytilegu verðlagi jókst velta dagvöruverslunar hins vegar um 23,6% miðað við sama mánuð í fyrra.

Neysla á matvöru minnkar því lítillega á milli ára þó neytendur verji mun meira til matarinnkaupa nú en í fyrra.

Þetta kemur fram í smásöluvísitölu Rannsóknarseturs verslunarinnar á Bifröst.

Í skýrslu Rannsóknarseturs kemur fram að verð á dagvöru hækkaði um 25,2% á einu ári, frá október í fyrra til október á þessu ári og um 4,7% frá undangengnum mánuði.

Höfundar skýrslunnar vekja athygli á því að sala á áfengi jókst um 29,7% í október miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi og um 44,3% á breytilegu verðlagi.

Verð á áfengi hækkaði um 11,3% í október síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofu Íslands.

„Skýringin á þessari miklu veltuaukningu í áfengisverslun er hið mikla hamstur sem átti sér stað þann 31. október, þegar tilkynnt hafði verið um hækkun á áfengi sem tæki gildi 1. Nóvember,“ segir í skýrslu Rannsóknarseturs.

„Einnig ber að hafa í huga að í október síðastliðnum voru fimm föstudagar en í fyrra voru þeir fjórir. Föstudagar eru að jafnaði söluháir dagar í áfengissölu.“

Velta í fata- og skóverslun eykst en velta í húsgagnaverslun dregst verulega saman

Í október varð samdráttur í fataverslun. Veltan minnkaði um 16,5% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og um 2,4% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Vísitala fataverslunar á föstu verðlagi hefur undanfarna þrjá mánuði verið lægri en sami mánuður í fyrra hvern þessara mánaða.

Velta í fataverslun jókst þó um 4,7% í október frá mánuðinum á undan að raunvirði. Verð á fötum hækkaði um 16,8% á einu ári og um 5,3% frá mánuðinum á undan.

Þá kemur fram að velta skóverslunar jókst um 2,6% í október á föstu verðlagi og um 12,3% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.

„Skóverslun hefur því verið að ná sér á strik eftir samdrátt sem verið hefur allt frá því í maí síðastliðnum,“ segir í skýrslunni.

Verð á skóm hækkaði um 9,4% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Í október minnkaði velta í húsgagnaverslun um 44,8% á föstu verðlagi miðað við október í fyrra og um 31,2% á breytilegu verðlagi. Eftir nokkurn vöxt í húsgagnaverslun í sumar hefur veltan dregist saman um 44,5% á föstu verðlagi á tveimur mánuðum. Verð á húsgögnum hækkaði um 24,7% á síðastliðnum 12 mánuðum og um 6,5% á milli mánaðanna september og október.

Verðlag og neysla

Skýrsluhöfundar segja óvenjulegt að svo mikill samdráttur verði í einni tegund verslunar eins og reyndin var í húsgagnaverslun í október.

„Greinilegt er að hrun bankanna í byrjun október hefur sett sitt mark á sölu varanlegra neysluvara eins og húsgagna og annarra dýrra vörutegunda,“ segir í skýrslunni.

Eftir rúmlega 33% samdrátt í fataverslun á tveimur mánuðum hefur salan að raunvirði heldur glæðst aftur.

Þá kemur fram að þó miklar verðhækkanir hafi orðið á fötum undanfarið virðast verslanir þó hafa tekið á sig töluverðar hækkanir ef miðað er þau áhrif sem gengið hefur á verðlag innfluttra vara.

„Ætla má að aukin verslun erlendra ferðamanna hér á landi að undanförnu hafi örvað sölu á fötum og annarri sérvöru,“ segir í skýrslu Rannsóknarseturs.