Farþegum Icelandair fjölgaði verulega í júlí í millilanda- og innanlandsflugi, bæði frá júnímánuði og miðað við sama tíma í fyrra. Þá hefur farþegum í tengiflugi yfir hafið fjölgað töluvert og hafa þeir ekki verið fleiri frá því áður en faraldurinn hófst, að því er kemur fram í tilkynningu Icelandair samhliða mánaðarlegum flutningatölum fyrir júlímánuð.

Heildarfjöldi farþega í millilanda- og innanlandsflugi hjá Icelandair var um 219.400 í júlí samanborið við um 88.000 á sama tíma í fyrra. Þar af voru farþegar í millilandaflugi um 195.200, samanborið við 73.350 farþega í júlí 2020 og 72.000 í júní 2021.

Farþegar til Íslands voru 116.700, samanborið við um 58.350 í júlí 2020 og farþegar frá Íslandi voru 27.700 en þeir voru 13.400 í júlí 2020. Eftirtektarverð fjölgun var á meðal tengifarþega í júlí. Fjöldi þeirra nam um 50.900 og hafa ekki verið fleiri síðan í febrúar 2020.

Sætanýting var 70,4% samanborið við 53,6% í júní 2021 og 70,5% í júlí 2020. „Líkt og undanfarna mánuði hefur Icelandair notað Boeing 767 flugvélar í stað smærri flugvéla á mörgum flugleiðum vegna mikillar eftirspurnar eftir fraktrými og hefur það haft nokkur áhrif á sætanýtingu,“ segir í tilkynningunni.

Farþegar í innanlandsflugi voru um 24.200 samanborið við 14.600 á sama tíma í fyrra og fjölgaði þeim um 2.000 frá því í júní. Farþegum í innanlandsflugi hefur fjölgað um 51% á milli ára það sem af er þessu ári.

Fjöldi seldra blokktíma í leigustarfsemi félagsins jókst um 133% á milli ára í júlí. Fraktflutningar jukust um 18% á milli ára í júlí og hafa aukist um 19% fyrstu sjö mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group:

„Það er ánægjulegt að sjá að fjölgun farþega heldur áfram bæði í millilandaflugi og innanlands. Við fluttum rúmlega 60% fleiri farþega til landsins í júlí en í júní sem sýnir mikinn áhuga á Íslandi sem áfangastað. Stundvísi í leiðakerfinu var 81% þrátt fyrir aukið flækjustig og kröfur til flugrekenda vegna ferðatakmarkana sem hafa valdið auknu álagi bæði í Keflavík og á flugvöllum erlendis.

Þessi góði árangur er til marks um frábæra frammistöðu starfsfólks og samstarfsaðila á öllum okkar starfsstöðvum við mjög krefjandi aðstæður. Kórónuveirufaraldurinn heldur áfram að hafa áhrif á líf og störf hér á landi sem og annars staðar. Á þessum tímapunkti er mikilvægt að við finnum hinn gullna meðalveg á milli sóttvarnaraðgerða á landamærum og innanlands til þess að við getum sem best stuðlað að jafnvægi í efnahagslífinu og samfélaginu til lengri tíma.

Sem leiðandi flugfélag og mikilvægur atvinnurekandi hér á landi höldum við áfram að leggja okkar lóð á vogarskálarnar á þeirri vegferð með því að stuðla að öflugum flugsamgöngum sem eru okkur nauðsynlegar – ekki bara fyrir ferðalög og íslenska ferðaþjónustu, heldur alþjóðasamskipti, viðskipti, fraktflutninga og almenn lífsgæði í landinu. Við munum því halda sókninni áfram og nýta þann sveigjanleika sem við höfum til að mæta eftirspurn í takt við þá stöðu sem er uppi á mörkuðum okkar á hverjum tíma.“