Um 70.500 erlendir ferðamenn fóru frá landinu í febrúar síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 18.000 fleiri en í febrúar á síðasta ári. Aukningin nemur 34,4% milli ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Um 82% ferðamanna í febrúar árið 2015 voru af tíu þjóðernum. Bretar voru fjölmennastir eða 41,5% af heildarfjölda en næstir komu Bandaríkjamenn (12,8%). Þar á eftir fylgdu Frakkar (5,2%), Þjóðverjar (4,8%), Norðmenn (3,6%), Danir (3,3%), Kínverjar (3,0%), Hollendingar (2,7%), Japanir (2,5%) og Kanadamenn (2,4%).

Það sem af er ári hafa 133.237 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða um 34 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 34,4% aukningu milli ára. Veruleg aukning hefur verið frá flestum mörkuðum; Mið- og S-Evrópubúum hefur fjölgað um 49,4%, ferðamönnum frá N-Ameríku um 37,9%, Bretum um 29,3%, Norðurlandabúum um 13,9% og ferðamönnum frá öðrum mörkuðum um 44,9%.

Um 23 þúsund Íslendingar fóru utan í febrúar síðastliðnum eða 2.100 fleiri en árið 2014. Um er að ræða 10,1% fleiri brottfarir en í febrúar 2014.