Sala á nýjum fólksbílum í desembermánuði jókst um 39% en nýskráðir fólksbílar á þessu tímabili voru 403 stk. á móti 290 í sama mánuði 2013. Er það aukning um 113 bíla milli ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Í tilkynningunni segir einnig að salan á nýjum bílum á árinu 2014 hafi verið nokkuð góð og farið fram úr þeim væntingum er Bílgreinasambandið átti von á í upphafi árs. Aukninguna megi rekja að stórum hluta til endurnýjunar á fjölskyldu- og atvinnubílum en þörfin á endurnýjun hafi verið orðin brýn þar sem meðalaldur bíla hér á landi er hár.

„Við erum bjartsýn fyrir árið sem nú er gengið í garð og reiknum með áframhaldandi góðri sölu á nýjum bílum. Nýir bílar stuðla að auknu umferðaröryggi og minni mengun en gríðarlegar framfari hafa orðið hvað það varðar á allra síðustu árum. Bílgreinasambandið spáir því að nýskráðir fólksbílar á árinu 2015 verði um það bil 10.800 talsins,“ segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.