Sala á nýjum fólksbílum í aprílmánuði jókst um 91% frá sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Nýskráðir fólksbílar á tímabilinu voru 1.305 talsins á móti 684 eintökum í sama mánuði 2014. Nemur aukningin því 621 bíl. Þar af voru 777 bílaleigubílar og voru þeir 59% af heildarnýskráningum fólksbíla í mánuðinum.

„Bílaleigubílar eru stór hluti af heildarnýskráningum fólksbíla á vormánuðum og vega þeir hátt í heildinni. Hins vegar hefur bílasala tekið vel við sér það sem af er árinu og er það von okkar að sú þróun haldi áfram. Meðalaldur fólksbíla hér á landi er með því hæsta sem þekkist eða 12,7 ár og því nauðsynlegt að endurnýja flotann svo við fáum notið þess besta í bílum er snýr að umferðaröryggi og eyðslu,“ segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.