Sælgætisgerðin Freyja hefur stóraukið útflutning á sælgæti á síðustu misserum, sér í lagi lakkrís og súkkulaði, til hinna Norðurlandanna. Sagt er frá þessu í Morgunblaðinu í dag.

Freyja framleiðir um þúsund tonn af sælgæti á ári og þar af er hlutdeild útflutnings um 20-30%, að sögn Péturs Blöndal, framkvæmdastjóra Freyju. Pétur segir í samtali við Morgunblaðið að fyrirtækið hafi lengi unnið að því að auka umsvif erlendis og nú sé árangurinn farinn að gera vart við sig. Hann bendir á að veik króna síðustu ár hafi hjálpað til, mun erfiðara hafi verið að flytja út fyrir hrun.

Pétur segir veltu á íslenskum sælgætismarkaði ekki hafa dregist mikið saman í hruninu. Þvert á móti hafi eftirspurn eftir íslensku sælgæti snaraukist á sama tíma og innflutt sælgæti hafi orðið dýrara. Þó sé útlitið á hráefnismörkuðum ekki gott í ljósi mikilla verðhækkana.