Á þriðja ársfjórðungi ársins fluttu 950 manns til landsins umfram brottflutta en á sama tímabili í fyrra voru þeir einungis 80, og á ársfjórðungunum þar á undan voru þeir í kringum 300 fleiri en brottfluttir.

Á öðrum ársfjórðungi voru 1.490 aðfluttir umfram brottflutta, og  á þeim fyrsta voru þeir 1.000. Loks voru 990 aðfluttir umfram brottfluttra á fjórða ársfjórðungi síðasta árs.

Síðasti ársfjórðungurinn þar sem fleiri fluttu frá landinu en til þess var 3. ársfjórðungur ársins 2012. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun voru íbúar landsins orðnir tæplega 338 þúsund í lok september.

Fleiri íslenskir ríkisborgarar flytja út en heim

Ef einungis eru taldir þeir sem eru með íslenskt ríkisfang fluttu 290 fleiri þeirra frá landinu heldur en fluttu til þess.

Aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru hins vegar 1.240 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar .

Flestir fluttu heim frá Noregi

Danmörk var helsti áfangastaður íslenskra ríkisborgara, en þangað fluttust 500 manns en Noregur var það land sem flestir íslenskir ríkisborgarar fluttu frá eða 310.

Samtals fluttu 1.050 íslenskir ríkisborgarar til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, en heildarfjöldi þeirra sem flutti erlendis var 1.410.

Heildarfjöldi íslenskra ríkisborgara sem fluttu til landsins frá þessum þremur löndum var 750 af 1.120 í heildina.

Flestir flytja til og frá Póllandi

Flestir, eða 250, af þeim 1.060 erlendum ríkisborgurum sem fluttu frá landinu fluttu til Póllands en það er einnig upprunaland flestra erlendra ríkisborgara sem hingað flytjast, eða 710 af alls 2.300 erlendum innflytjendum.

Næst á eftir kom Litháen, en þaðan fluttu 180 erlendir ríkisborgarar til landsins. Í heildina bjuggu 29.990 erlendir ríkisborgarar á Íslandi við lok 3. ársfjórðungs.