*

laugardagur, 4. júlí 2020
Innlent 27. júní 2020 12:01

Mikil barátta að ná fyrri styrk

Framkvæmdastjóri sjóðs sem á helming í Keahótelum segir að nokkur ár muni taka fyrir greinina að ná sér að fullu.

Júlíus Þór Halldórsson
Hugh Short segir Keahótel hafa verið eina af tímafrekustu fjárfestingum sínum uppá síðkastið.
Haraldur Guðjónsson

Hugh Short, stofnandi og framkvæmdastjóri bandaríska fjárfestingasjóðsins Pt Capital – sem á helmingshlut í íslensku hótelkeðjunni Keahótel og fjarskiptafyrirtækinu Nova – segir ríkið ekki hafa gert nóg til að aðstoða ferðaþjónustuna í gegnum heimsfaraldurinn. Næstu ár verði erfið, en góður árangur í baráttunni við veiruna hafi hjálpað til og jafnvel skapað viss tækifæri.

„Það hve vel Íslandi hefur tekist að takast á við faraldurinn hefur skapað eins öruggt umhverfi og hugsast getur á meðan ekki er til bóluefni. Nýleg opnun landamæranna í kjölfarið, á undan öðrum löndum, hefur komið Íslandi í eins góða stöðu og hægt er miðað við aðstæður,“ segir hann.

Faraldurinn hafi hins vegar haft veruleg áhrif á ferðamennsku um allan heim, og Ísland sé þar þrátt fyrir allt engin undantekning. „Eins og aðrir í sömu sporum getum við lítið annað gert en að bíða átekta það sem eftir er af árinu í von um betri tíð á því næsta, sem ég held að verði mun gæfuríkara, þó ég viti ekki frekar en aðrir hversu mikið og hratt aðstæður koma til með að batna.“

Hótelbransinn afar háður ferðamönnum
Short hefur ekki trú á svokallaðri V-laga viðspyrnu. „Ég vona auðvitað að ég hafi rangt fyrir mér, en ég tel að við verðum lengur að ná okkur en það. Það verður mikil barátta að ná fyrri styrk. Ríkisstjórnin hefur átt í miklum erfiðleikum með að setja saman fullnægjandi björgunarpakka fyrir ferðaþjónustuna. Vissulega hefur eitthvað verið gert, en betur má ef duga skal.“

Hótelbransinn á Íslandi sé svo háður erlendum ferðamönnum að að hans mati muni það taka nokkur ár fyrir hann að ná sér að fullu, og þegar yfir verði staðið verði færri og stærri fyrirtæki eftir, eftir tímabil samþjöppunar á næstunni.

Góðu fréttirnar séu hins vegar þær að þorri ferðamanna komi hingað með flugi en ekki skemmtisiglingum, ólíkt Alaska sem reiði sig að verulegu leyti á sjósamgöngur fyrir ferðamennsku, en Short og Pt Capital eiga sínar höfuðstöðvar þar. „Það er allskostar óvíst hvort og þá hvenær fólk mun treysta sér á skemmtiferðaskip aftur. Ferðaiðnaðurinn á Íslandi mun því örugglega ná sér fyrr en á stöðum á borð við Alaska.“

Nánar er rætt við Short í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Keahótel Hugh Short Pt Capital