*

laugardagur, 20. júlí 2019
Fólk 1. júlí 2018 19:01

Mikil bíladella í fjölskyldunni

María Jóna Magnúsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.

Sveinn Ólafur Melsted
María Jóna Magnúsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.
Haraldur Guðjónsson

María Jóna Magnúsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, er fyrsta kona sem gegnir starfi framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins. María hefur starfað í bílgreininni í samtals tæpa tvo áratugi, nú síðast sem framkvæmdastjóri viðskiptatengsla og síðar framkvæmdastjóri sölusviðs Heklu. „Ég er mjög spennt að takast á við þetta krefjandi starf sem mér hefur verið treyst fyrir. Það eru mörg stór verkefni sem liggja fyrir í grein sem er að takast á við gífurlegar tæknibreytingar og ég hlakka til að starfa með öllum félagsmönnum að auknum framförum í bílgreininni,“ segir María.

Hún telur jákvætt að kona sé komin í þessa stöðu innan bílgreinarinnar. „Bílgreinin er mjög karllægur heimur og ég held að við þurfum að sýna konum og þá ungum stelpum sérstaklega, að þetta sé vettvangurinn fyrir stelpur líka. Það er mikilvægt að þær séu ekki feimnar við að koma sér á framfæri í þessum geira, ef þær hafa áhuga á þessu. Ég tel því að það sé jákvætt að það sé kona í þessari stöðu í dag.“ 

Bílar og skíði helstu áhugamál 

Áhugi Maríu á bílum hófst þegar hún var ung að árum. „Ég var svo heppin að eiga föður sem hafði ómælda þolinmæði fyrir mér og hann var mikill bílaáhugamaður. Þannig að ég var mikið með honum á bílasölurúntinum sem krakki og afi minn var sömuleiðis með verkstæði á Akureyri. Það má því segja að ég hafi ung fengið mikinn áhuga á bílum. Bíladellan hefur verið svolítið gegnum gangandi í fjölskyldunni. Ég hef einnig mikinn áhuga á skíðum, ég keppti lengi á skíðum og var meðal annars í unglingalandsliði. Ég fór erlendis í skíðamenntaskóla en eins og ég segi í dag er ekkert frí betra en að komast aðeins í brekkurnar,“ segir María

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.