Fasteignamat jarða og eyðibýla í eigu ríkisins er um 2,9 milljarðar króna. Markaðsvirði gæti verið um 15 milljarðar.

Jarðir og eyðibýli í eigu íslenska ríkisins eru 497 talsins, en ekki liggur fyrir flatarmál þeirra. Fasteignamat þeirra er hins vegar um 2,9 milljarðar króna. Hlunnindi og ræktun eru 170 talsins, metin á um 350 milljónir króna.

Lóðir og spildur í eigu ríkisins eru síðan 2.211 talsins, metnar á 12 milljarða króna. Jarðir eru ekki metnar í samræmi við reglur um viðmiðun við markaðsverð fasteigna. Markaðsvirði gæti verið hundraðfalt fasteignamat Stærð jarða með úthögum hefur almennt ekki verið metin, aðeins ræktarland í hekturum talið. Talan fyrir allt saman er ekki til en ef talað er um heildarstærð er eflaust um tugi þúsunda hektara að ræða.

Þegar um er að ræða jörð í ábúð er yfirleitt aðeins greitt fasteignagjald af ræktuðu landi. Þessi sama jörð gæti haft önnur eins eða meiri verðmæti í sér fólgin í úthaga eða óræktuðu landi, heiðarlandi o.s.frv., vegna þess að á allra síðustu árum hafa slík svæði breyst í raunveruleg verðmæti í hugum manna.

„Það eru klárlega mikil dulin verðmæti fólgin í jarðeignum ríkisins,“ segir Snævar Guðmundsson, forstjóri Fasteigna ríkissjóð. „Ef fjölda jarðanna er deilt upp í fasteignamatið sést að meðalverðið er rétt innan við 6 milljónir króna. Það þætti ekki dýr jörð í dag, þegar verið er að selja jarðir á allt upp í 150 milljónir í sumum héruðum. Í einstaka tilvikum gæti eflaust markaðsvirðið verið hundraðfalt fasteignamatið. En þetta eru vitanlega jarðir af ýmsum tegundum og staðsetning þeirra ekki alltaf verðmæt.“

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .