Mikil eftirspurn var eftir 6.000.000 hlutum í Føroya Banka sem seldir voru í hlutafjárútboði, en hver hlutur var 20 danskar krónur að nafnverði. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fjárfestar í Færeyjum, á Íslandi og í Danmörku sýndu mikinn áhuga og eftirspurn eftir bréfunum var einnig mikil meðal fjárfesta annars staðar í Evrópu. Hin mikla eftirspurn varð til þess að áskriftir í útboðinu voru fyrir 26 sinnum því hlutafé sem selt var, segir í tilkynningunni.

Eftir að útboðinu lauk hafði stjórnarformaður Financing Fund of 1992, Eyðun á Rógvi, þetta að segja:

?Við erum afar ánægð með hversu vel heppnuð þessi fyrstu skref sem Føroya Banki er að stíga sem einkavætt og skráð hlutafélag. Þau pólitísku markmið sem sett voru fyrir einkavæðinguna hafa náðst og við teljum okkur hafa fengið gott verð fyrir bankann. Þetta veit á gott fyrir framtíð bankans og áframhaldandi jákvæð áhrif hans á þróun færeysks samfélags.?