Landsbankinn lauk í dag við sölu á 5% hlut í Marel í útboði. Söluandvirðið nam rúmum 5,2 milljörðum króna.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum að eftirspurn fjárfesta hafi verið mjög góð og þeir óskað eftir því að kaupa 74,3 milljónir hluta í Marel, eða sem nemur um 10,1% af heildarhlutafé Marel. Tilboð bárust í hluti á bilinu 138-142 krónur á hlut, en 88% af fjárhæð tilboða var á genginu 142 krónur á hlut.

Þá kemur fram í tilkynningunni að sölugengi í útboði Landsbankans hafi verið ákvarðað 142 krónur á hlut. Heildarnafnverð samþykktra tilboða, eftir skerðingu, var 36.778.455 hlutir eða sem samsvarar 5% af heildarhlutafé Marel.

„Öll samþykkt tilboð voru boðin fjárfestum á sama gengi, þar sem lægsta samþykkta gengi réð sölugenginu. Samþykkt tilboð sem bárust á sama gengi og sölugengi voru skert sem nam umframeftirspurn, en þó aldrei niður fyrir 100.000 hluti að nafnverði á hvern fjárfesti. Skerðingin var 52% á þann fjölda hluta sem voru umfram 100.000 hluti að nafnverði. Tilboðum sem bárust á lægra gengi en sölugengi var hafnað.“

Hlutabréf Landsbankans verða afhent nýjum eigendum á mánudaginn í næstu viku.