Birgðir nýju 3G útgáfu iPhone eru uppseldar í Bretlandi áður en sala hans hefst, samkvæmt frétt Guardian. Viðskiptavinir hafa lagt fram pantanir fyrir símann en sala á honum hefst af alvöru á föstudag.

Opnað var fyrir pantanir á símanum á heimasíðu O2 klukkan 8 í morgun. Síðan hrundi áður en klukkustund var liðin vegna mikillar umferðar. Síðdegis var fyrsta sending símanna svo uppseld.

Samkvæmt frétt Guardian halda sumir keppinauta O2 því fram að fyrirtækið hafi viljandi haft fyrstu birgðir nýja iPhone símans litlar til að fá meiri umfjöllun um sölu hans.

O2 segjast hafa tekið við símapöntunum frá 200.000 manns í dag.