Seðlabankinn efndi í dag til útboðs ríkisbréfa í flokk RIKB 08 1212.  Seðlabankinn tók tilboðum fyrir 15 milljarða króna, en eftirspurn eftir bréfunum var mun meiri og tilboð bárust fyrir 43,7 milljarða króna. Ávöxtunarkrafa flokksins hækkaði töluvert í kjölfar þess að tilkynnt var um útboðið í síðustu viku og var meðalávöxtunarkrafa tekinna tilboða í dag 12,5%. Þetta er annað útboðið í flokkinn sem ekki var gert ráð fyrir í ársáætlun Seðlabankans, en gripið hefur verið til þess að stækka flokkinn vegna mikillar umframeftirspurnar eftir stuttum óverðtryggðum ríkisbréfum, að því er segir í morgunkorni Glitnis. Stærð flokksins var fyrir útboðið rúmlega 22 milljarðar króna.

Næstkomandi fimmtudag fer fram mánaðarlegt útboð Seðlabankans á ríkisbréfum í flokki RIKB 19, lengsta flokki ríkisbréfa. Stefnt er að því að stækka flokkinn um allt að 10 milljarða króna að nafnvirði að þessu sinni, en Seðlabankinn stefnir að því að byggja fokkinn upp í 35 milljarða króna á árinu í mánaðarlegum útboðum. Útistandandi fjárhæð flokksins nú nemur rúmum 16 milljörðum króna.

Í Vegvísi Landsbankans er jafnframt greint frá því að aukið framboð ríkisbréfa og fyrirheit um frekari útgáfur hafi leitt til þess að markaðsvextir hafa tekið að hækka á ný og þannig stuðlað að aukinni virkni peningastefnu Seðlabankans.