Fulltrúaval á landsfund Sjálfstæðisflokksins stendur nú yfir en rétt tæplega tvö þúsund manns eiga seturétt á fundinum. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Sjálfstæðisflokksins er mikil eftirspurn eftir fulltrúasætunum.

Landsfundinum hefur verið flýtt, eins og kunnugt er, til 29. janúar. Hann mun standa yfir til 1. febrúar. Þar mun flokkurinn taka afstöðu til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Val fulltrúa á landsfund fer fram með tvennum hætti. Annars vegar hafa kjördæmisráð flokksins og Vörður – Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík rétt til að kjósa ákveðinn fjölda fulltrúa, sem ræðst af fylgi flokksins í viðkomandi kjördæmi í síðustu alþingiskosningum.

Hins vegar kjósa sjálfstæðisfélögin hvert fyrir sig landsfundarfulltrúa eftir fjölda félagsmanna. Nú eru starfandi 148 sjálfstæðisfélög á landinu.

Þeir sem eiga sæti í flokksráði, alls 260 manns, eru sjálfkjörnir á landsfund.

Nánari upplýsingar um fundinn má finna hér .