Að undanförnu hefur verið nokkur umræða í fjölmiðlum um það hvort tekið sé að hægja á íslenskum fasteignamarkaði, bæði hvað umfang viðskipta og verð varðar, eftir mikla veltu undanfarið ár. Haft hefur verið eftir fasteignasölum að þeir skynji að dregið hafi úr spennunni á markaðnum. Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans, segir það skilgreiningaratriði hvort að tala megi um kulnun á fasteignamarkaðnum. Að hans mati er hin mikla eftirspurn enn til staðar en minnkandi sala stafi einfaldlega af skorti á íbúðum.

Þó að það dragi úr hækkunum er þó fátt eða ekkert sem bendir til þess að fasteignaverð muni koma til með að lækka í framtíðinni enda fasteignaverð mjög tregbreytanlegt niður á við.

Erfitt að segja til um kólnun

Fasteignamarkaðurinn er sveiflukenndur og rétt er að meðalfjöldi viðskipta fyrstu mánuði þessa árs er töluvert minni en meðaltal síðasta árs. Ari segir þó erfitt að fullyrða um hvort að það sé til marks  um raunverulega kólnun á markaðnum. „Það má auðvitað tala um kólnun að því leyti að það er verið að selja minna. En verðið er hinsvegar enn þá að hækka þó að hækkunin sé minni en verið hefur að undanförnu.

Þannig að markaðurinn hefur vissulega kólnað að hluta en ég er þó ekki farinn að sjá neina kólnun í verðþróun,“ segir Ari. Hann bætir því þó við að gjarnan séu of miklar ályktanir dregnar af breytingum sem eiga sér stað á stuttum tíma. „Fólk er yfirleitt að lesa allt of mikið í breytingar sem eiga sér stað á stuttum tíma, það birtast vikulega tölur inni á þjóðskrá um fjölda viðskipta sem sjaldan er eitthvað að marka.

Stysta tímabilið sem hægt er að skoða er mánuður en best er þó að skoða ársfjórðunga. Það eru svo miklar sveiflur í þessu en samt sem áður er ekki hægt að neita því að staðan síðasta hálfa árið er búin að einkennast af ótrúlega miklum verðhækkunum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublað.