Útboð á óverðtryggðum ríkisbréfum í flokki RIKB 08 1212 og RIKB 09 0612 fór fram í dag. Eftirspurnin var nálægt því að vera tvöfalt það magn sem í boði var.

Vegvísir Landsbankans greinir frá þessu.

Í útboðinu var óskað eftir tilboðum í samtals 25 ma.kr í þessum tveimur stystu flokkum ríkisbréfa en fyrir helgi var tilkynnt að þrír stystu flokkar ríkisbréfa yrðu stækkaðir um allt að 75 ma.kr samanlagt. Því má búast við frekari útboðum á næstunni þar sem þeir 50 ma.kr sem eftir standa verða í boði.

Í Vegvísinum segir jafnframt að 24 gild tilboð hafi borist í stysta flokkinn RIKB 08 1212 að fjárhæð 26,1 ma.kr en tilboðum var tekið fyrir 15 ma.kr sem var það magn sem í boði var.

Meðalverð tekinna tilboða var 98,42 (11,65% flatir vextir) en í lok viðskipta í dag var ávöxtunarkrafa flokksins 11,8%. Í RIKB 09 0612 bárust 22 gild tilboð samtals að fjárhæð 18,4 ma.kr að nafnverði en tilboðum var tekið fyrir 10 ma.kr sem var sú upphæð sem óskað hafði verið eftir. Meðalverð tekinna tilboða var 96,23 (12,9% flatir vextir) og var ávöxtunarkrafa í lok dags 12,9%.