Fjöldi umsókna eftir húsnæði á vegum Félagsstofnunar Stúdenta stefnir í að verða svipaður og í fyrra, en þá voru umsóknir fleiri en nokkru sinni fyrr, eða rúmlega 1800. Eftirspurn stúdenta eftir húsnæði er því mikil, en á görðunum búa um 1600 manns, að  því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Rebekka Sigurðardóttir segir í samtali við Morgunblaðið að Félagsstofnun sé með rúmlega 1.100 leigueiningar. Þar af verður einungis hægt að úthluta 260 einingum í þessari úthlutun, en 840 losna ekki.

Svo virðist sem þörf stúdenta eftir íbúðum aukist með hverju ári. Rebekka segir að búsetutíminn sé að lengjast. Hann sé farinn að nálgast þrjú ár en hafi verið í kringum tvö og hálft. Hún segist meta stöðuna þannig að það sé þörf fyrir um 2100 leigueiningar og því sé markmiðið að byggja 1000 ibúðir í viðbót. Ráðist verður í byggingu við Brautarholt innan skamms sem mun rúma tæplega 100 íbúðir.

Þá segir Rebekka að FS telji flugvallarsvæðið eftirsóknarvert. Kannanir og biðlistar sýni að stúdentar vilji búa í nágrenni við háskólann.