Talsverð eftirvænting ríkir meðal bandarískra fjárfesta eftir uppgjörum frá tæknifyrirtækjum þarlendis, en Apple mun birta uppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun markaða á morgun. CNN greinir frá málinu.

Sérfræðingar búast við því að hagnaður Apple dragist saman á milli ára. Uppgjörið mun einnig varpa ljósi á hvernig sala á nýjum síma fyrirtækisins, iPhone 5s, hefur gengið en síminn fór í almenna sölu í síðasta mánuði.

Þá mun Nokia birta uppgjör sitt á þriðjudag, en fyrirtækið tilkynnti nýlega að von væri á Nokia spjaldtölvu á næstu mánuðum. Microsoft keypti á dögunum farsímahluta fyrirtækisins, en málið olli talsverðum usla í Finnlandi þar sem starfslokagreiðslur fráfarandi forstjóra þóttu fara langt fram úr hófi.

Samfélagsmiðlarnir Facebook og LinkedInn munu einnig birta uppgjör sín í vikunni en hlutabréfverð Facebook hækkaði um fjórðung á milli ára á öðrum ársfjórðungi. Hlutabréfverð Facebook hefur því tvöfaldast á síðustu 9 mánuðum.