„Ef það eru til fánar verða þeir settir upp en það er mjög mikil eftirvænting í húsinu,“ segir Guðbjörg R. Guðmundsdóttir, samskiptafulltrúi á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund vegna landsleiks Íslands og Króatíu sem hefst eftir nokkrar klukkustundir.

Fyrir síðasta leik þegar Króatar sóttu Íslendinga heim var mikil stemmning í öllum setustofum og mikill áhugi hjá heimilisfólki að sögn Guðbjargar.

Í dag er eftirvæntingin ekki minni: „Það er búið að auglýsa leikinn um allt hús en það eru tveir hópar af konum sem eru alveg sérstaklega spenntir. Þær horfa saman á leikina og fylgjast vel með,“ segir Guðbjörg.

Hún segir að kvöldmaturinn verði með hefðbundnum hætti en þó verði boðið upp á malt, appelsín, sætindi og snakk á setustofunum á meðan á leiknum stendur.