Færeyska uppsjávarfyrirtækið Christian í Grótinum hefur samið við Karstensens skipasmíðastöðuna í Danmörku um smíði á nýju uppsjávarskipi. Skipið er ennfremur hannað af Karstensens skipasmíðastöðinni.

Mikil endurnýjun stendur yfir á skipaflota Færeyinga um þessar mundir. Auk nýja uppsjávarskipsins, sem mun bera heitið Christian í Grótinum og leysa samnefnt skip af hólmi sem útgerðin keypti frá Noregi árið 2013, er útlit fyrir að þrjú önnur ný skip berist til eyjanna á næstu misserum. Auk Christians í Grótinum gerir fyrirtækið út uppsjávarskipið Norðborg.

Nýr Christian í Grótinum verður 90 metra langur, 17 metra breiður og áætlaður smíðakostnaður er nálægt 6,5 milljarðar ÍSK. Skipið verður 16 kælitanka sem taka 3.550 rúmmetra alls.

Nýr Gadus

En sem fyrr segir er Christian í Grótinum ekki eina útgerðarfyrirtækið sem hyggur á skipasmíðar. Innan tveggja ára bætast við þrír aðrir nýir togarar við skipaflota Færeyinga að öllu óbreyttu.

Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið JFK í Klakksvík tilkynnti í febrúar áætlanir um smíði á nýjum Gadus, 86 metra löngum verksmiðjutogara sem er hannaður af Skipsteknisk í Noregi og verður smíðaður í Tyrklandi. Skipið leysir af hólmi eldri Gadus sem var smíðaður 1987 og JFK keypti árið 2010. Nýr Gadus er fyrsta nýsmíði Færeyinga sem tilkynnt hefur verið um í tíu ár. Áætlað smíðaverð er 8,5 milljarðar ÍSK og áætlað er að skipið verði afhent á árinu 2022. JFK rekur stærstu fiskvinnsluna í Færeyjum og framleiðir jafnt saltfisk, frystan fisk og ferskar afurðir.

Nýtt Akraberg fyrir Framherja

Í mars á þessu ári tilkynnti Framherji í Fuglafirði að það hefði samið við norsku Vard skipasmíðastöðina um smíði á nýju Akrabergi, 84 metra löngu verksmiðjuskipi með aðstöðu fyrir 25 manna áhöfn í eins manns klefum. Afurðirnar verða kældar eða frystar um borð en einnig verður í skipinu tankur fyrir lifandi fisk. Skipið verður með tvinnaflrás og getur athafnað sig í höfnum án þess að út sleppi mengandi lofttegundir. Áætlað smíðaverð er um 8 milljarðar ÍSK. Íslenska útgerðarfélagið Samherji á 25% hlut í Framherja sem er stærsta útgerðarfyrirtæki Færeyja. Þorsteinn Már Baldursson, stjórnarformaður Samherja, sagði sig úr stjórn Framherja í nóvember á síðasta ári í kjölfar umfjöllunar um hið svokallaða „Namibíumál“.

Í júní síðastliðnum tilkynnti svo PF Havborg í Þórshöfn um að gengið hefði verið til samninga við Tersan skipasmíðastöðina í Tyrklandi um smíði á 88 metra löngum frystitogara sem hannaður er til að draga þrjú troll. Skipið er hannað af Skipsteknisk og er sérstaklega hannað til veiða á norðlægum slóðum. Aðstaða verður fyrir allt 40 manns í skipinu.

Öll verða skipin afhent á árinu 2022.