Starfsemi Glitnis í Evrópu hefur frá ársbyrjun verið í endurskoðun með það fyrir augum að skerpa áherslur og ná fram hagræðingu og lækkun kostnaðar.

Í tilkynningu frá félaginu vegna uppsagna bankans í dag eru nefnd eftirfarandi dæmi:

- Skrifstofu bankans í Danmörku var lokað í febrúar sl. og hluti starfseminnar flutt til London og Reykjavíkur. Stöðugildum fækkað um 15.

- Starfsemi í Noregi endurskipulögð með sameiningu fyrirtækja bankans undir nafni Glitnis ásamt öðrum aðgerðum. Stöðugildum fækkað um 60.

- Dregið úr fasteignalánastarfsemi í Evrópu og starfsemi bankans í Lúxemborg endurskipulögð í byrjun apríl sl. Með því losar bankinn um 100 milljarða í lausafé. Stöðugildum fækkað um 10.

- Starfsemi skrifstofu bankans í London endurskipulögð í lok apríl og stöðugildum fækkað um 10.

Kostnaðaraðhald og hagræðingaraðgerðir á Íslandi

Glitnir hefur einnig leitað leiða til að hagræða í starfsemi sinni á Íslandi.

Í tilkynningunni kemur fram að almennt kostnaðaraðhald hefur ríkt í bankanum frá ársbyrjun, nýráðningum hefur verið haldið í lágmarki og ekki hefur verið ráðið störf sem hafa losnað.

Í apríl síðastliðnum var útibúi bankans í Smáralind lokað og það sameinað útibúinu í Hamraborg í Kópavogi. Þá verða útibú Glitnis í Skútuvogi og á Kirkjusandi sameinuð þar sem sérstök áhersla verður lögð á þjónustu við smærri og meðalstór fyrirtæki.