*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Innlent 9. október 2019 14:11

Mikil fækkun tengifarþega

Áherslubreyting stjórnenda Icelandair endurspeglast í mikilli fækkun tengifarþega að undanförnu.

Ritstjórn
Tengiflug milli Atlantshafsins hefur um árabil verið ein af meginstoðum í viðskiptamódeli Icelandair.
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt mánaðarlegum upplýsingum Icelandair um fjölda ferðþega félagsins má sjá að hlutfall tengifarþega var 45% á þriðja ársfjórðungi. Í frétt á vefnum turisti.is segir að leita þurfi átta ár aftur í tímann til að finna álíka lágt hlutfall tengifarþega. 

„Á árunum 2014 til 2017, þegar Icelandair skilaði metafkomu, þá var vægi tengifarþega á bilinu 55 til 58 prósent á þriðja ársfjórðungi eins og sjá má á línuritinu fyrir neðan,“ segir enn fremur á vefnum.

„Megin ástæðan fyrir þessari breytingu er sú að stjórnendur Icelandair hafa að undanförnu lagt höfuðáherslu á ferðamannamarkaðinn til Íslands. Og sú stefna var mörkuð að einhverju leyti áður en WOW air var gjaldþrota í lok mars. Það kom til að mynda fram í máli Evu Sóleyjar Guðbjörnsdóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Icelandair Group, á afkomufundi fyrir fyrsta fjórðung þessa árs, að markaðurinn fyrir tengiflug væri erfiður. „Við erum viljandi, út af krefjandi aðstæðum á Via-markaði, að stýra tekjumynduninni inni á To og From,” sagði Eva Sóley í apríl. Og miðað við hvernig farþegatölur Icelandair hafa þróast síðan þá er ljóst að áfram er fókusinn á farþega á leið til og frá Íslandi í stað þeirra sem aðeins millilenda.

Þessi krefjandi samkeppni um farþega á leið á milli Evrópu og Norður-Ameríku hefur því dregið úr högginu sem fall WOW air var fyrir íslenska ferðaþjónustu þar sem Icelandair hefur sett Ísland í forgang. Hvort félagið breyti um kúrs á næstu misserum á eftir að koma í ljós en skyndilegar breytingar, t.d. verulegur samdráttur í Atlantshafsflugi Norwegian, gætu orðið til þess félagið setji aftur kraft í tengiflugið. Þess háttar stefnubreyting yrði áskorun fyrir íslenska ferðaþjónustu því eins og staðan er núna þá er ekki annað í kortunum en umsvif erlendra flugfélaga á Keflavíkurflugvelli verði nær óbreytt næsta sumar. Og ennþá er óljóst hversu umsvifamikið hið nýja WOW air verður og sömuleiðis flugfélagið sem fyrrum stjórnendur gamla WOW air eru með á teikniborðinu.

Í ljósi þess hve vægi tengifarþega hefur dregist saman hjá Icelandair má líka velta vöngum yfir því hvort flugfélagið geti haldið úti eins viðamiklu leiðakerfi og gert er í dag ef hlutfall tengifarþega hækkar ekki á ný. Því án fjölda farþega sem aðeins millilendir hér á landi þá er ekki endilega mögulegt að halda úti heilsársflugi til jafn margra borga eða bjóða upp á tíðar ferðir yfir háannatímann. Vísbending um það er sú staðreynd að sætanýtingin hjá Icelandair hefur dregist saman síðustu þrjá mánuði. Þróun fargjalda gæti þar líka haft sitt að segja en fyrirtækið upplýsir ekki um hvernig þau hafa þróast fyrr en á næsta afkomufundi.

Hvernig farþegaskiptingin verður hjá Icelandair á næsta ári ræðst að miklu leyti af sumaráætlun félagsins. Hún hefur ekki ennþá verið kynnt með formlegum hætti en þó liggur fyrir að San Francisco og Kansas City detta út,“ segir á ferðafréttavefnum turisti.is.