Mikil viðskipti voru með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu í ágúst, samkvæmt tölum Þjóðskrár. Fjöldinn var næstum helmingi meiri en í sama mánuði í fyrra, og hefur ekki verið meiri síðan í nóvember 2016. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans .

Viðskiptin í ágúst voru 728 talsins, samanborið við 499 í ágúst í fyrra, sem er 46% aukning. Fyrstu 8 mánuði ársins voru viðskiptin 7% fleiri en á sama tímabili í fyrra.

2017 var fyrsta ár síðan 2009 þar sem fjöldi viðskipta dróst saman frá fyrra ári, en útlit er fyrir að töluverð aukning verði í ár. Mikil uppbygging á sér nú stað, og hlutfall nýrra íbúða af heildarveltu hefur tvöfaldast, úr 8,3% 2017, í 16,5%, á fyrstu 7 mánuðum ársins.

Þá hefur meðalverð nýrra íbúða á fyrstu 7 mánuðum ársins hækkað um 5,1% milli ára, en meðalverð eldri íbúða um 4,3%.