Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir stefnu Landsnet kristallast í loforðum til samfélagsins um öruggt rafmagn, gæði og öryggi flutningskerfisins til framtíðar í sátt við samfélagið og umhverfi.

„Við tölum alltaf um rafvædda framtíð í takt við samfélagið og þá verður maður að huga að því að mörg sjónarmið eru til staðar. Umhverfissjónarmiðin hafa verið mikið áberandi en menn þurfa líka að huga að því að mæta kröfum samfélagsins um þjónustuna, uppbyggingu á kerfinu og væntingum vegna notkunar á hreinni orku,“ segir Guðmundur. Hann bætir því við að spennandi verði að fylgjast með þróuninni á raforkumarkaði í framtíðinni þar sem miklar breytingar eru í vændum.

„Við reiðum okkur í auknu mæli á öruggt rafmagn í okkar daglega lífi. Það eru ýmsar breytingar að gerast bæði í framleiðslu notenda og notendamöguleikum þannig að þeir stýri í meira mæli eigin notkun og geti stýrt álagi til dæmis eftir verði og geti meðal annars geymt orku heima. TESLA er til dæmis búið að kynna heimarafhlöður þannig þetta er spennandi og hröð þróun sem áhugavert verður að taka þátt í,“ segir Guðmundur.

Verulegur árangur náðst varðandi jarðstrengi

Viðskiptavinahópar Landsnets eru í grunninn tveir: almenningur og stórnotendur. Auk góðrar þjónustu þarf Landsnet að sögn Guðmundar einnig að huga að því að vera vel rekið og hagkvæmt fyrirtæki. Sömuleiðis sé mikilvægt að Landsnet geri eins vel og hægt er til að draga úr neikvæðum áhrifum starfsemi sinnar á umhverfið.

„Það er aldrei hægt að gera öllum til geðs en okkar verkefni er að gera eins vel og við getum á öllum sviðum þannig við rekum gott fyrirtæki, bjóðum upp á góða þjónustu og göngum eins vel um umhverfið og við mögulega getum,“ segir Guðmundur. Hann segir Landsnet leggja sig mikið fram þegar kemur að umhverfismálum og telur ákveðna gagnrýni byggða á misskilningi.

„Við höfum verið gagnrýnd fyrir að vera á móti jarðstrengjum en það er alls ekki rétt. Við höfum lagt mun fleiri jarðstrengi en loftlínu á undanförnum 10 árum og við höfum einnig lagt okkur mikið fram við að ná niður kostnaði við lagningu jarðstrengja. Þar höfum við náð verulegum árangri og því hefur skapast meira svigrúm til notkun jarðstrengja en ella. Þetta hefur greinilega komið fram í verkefnum sem við höfum ráðist í að jarðstrengir sem fyrir nokkrum árum hefðu verið taldir óhugsandi eru í dag orðnir að verkefnum.“

Mikilvægt að styrkja raforkukerfið

„Við höfum sérstakar áhyggjur af tveimur svæðum,“ segir Guðmundur þegar kemur að veikleikum raforkuflutningskerfisins á landsvísu. Annars vegar er um að ræða hið svokallaða byggðalínusvæði sem nær yfir Vesturland, Vestfirði, Norðurland og Austurland, en hins vegar Reykjanesið. Á báðum svæðum er flutningsgetan allt of lítil miðað við notkun og orkuöryggið ekki nægjanlega gott. Því er nauðsynlegt að styrkja flutningskerfið þar.

„Almennt séð er mjög mikil fjárfestingarþörf í flutningskerfinu, annars vegar uppsöfnuð og hins vegar vegna aukinnar notkunar á rafmagni,“ bætir Guðmundur við. Þetta gerir það að verkum að í sumum tilfellum er ekki hægt að tryggja aðilum öruggt aðgengi að raforku.

„Í stærra samhengi umhverfismála hefur verið talað um að skipta úr eldsneyti yfir í rafmagn en við erum alls ekki í stakk búin til þess vegna flutningstakmarkana. Aðgerðaráætlun stjórnvalda í orkuskiptum snýr að því að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir innlenda orkukjafa. Þetta þýðir að mikið magn af orku sem í dag er flutt með tankskipum til landsins og á tankbílum um þjóðvegi landsins mun í nánustu framtíð flæða um flutningskerfi Landsnets. Forsendan fyrir því að þetta sé mögulegt er fullnægjandi afhendingaröryggi og nægileg flutningsgeta til að anna þessari nýju þörf á flutningskerfið.“

Þegar hefur verið ráðist í átak um rafvæðingu fiskmjölsverksmiðja sem áður fyrr notuðu einvörðungu olíu til brennslu. Skerða hefur þurft raforku hjá verksmiðjunum vegna þess að flutningskerfið ber ekki álagið og skerðingarnar fara vaxandi. Þannig fer í raun heilmikil raforka til spillis og í staðinn brenna fiskmjölsverksmiðjurnar og fleiri fyrirtæki olíu.

„Við höfum áður nefnt að þegar kerfið er svona veikt tapist í raun orka í flutningskerfinu sem nemur einni sæmilega stórri virkjun,“ segir Guðmundur. Mikilvægustu framkvæmdirnar í náinni framtíð eru lagning Suðurnesjalínu 2 fyrir Reykjanesið og fyrir byggðalínusvæðið hefur Landsnet nefnt tvo meginvalkosti. Annars vegar byggðaleið þar sem farið er samhliða núverandi línum og hins vegar svokölluð hálendisleið.

„Báðar leiðirnar eru umdeildar en á mismunandi forsendum. Byggðaleiðin er umdeild út frá nærsamfélaginu því fólk vill ekkert endilega hafa háspennulínur eða jarðstrengi nálægt þeim stöðum sem það býr á. Hvað hálendisleiðina varðar bætast við tilfinningaleg rök um víðernið sem erfiðara er að setja mælikvarða á,“ segir Guðmundur. Unnið sé að mati á umhverfisáhrifum fyrir báðar leiðirnar þar sem fjöldi valkosta er metinn. Sem dæmi eru metnir loftlínukostir, loftlínur með jarðstreng að hluta auk jafnstraumsjarðstrengs alla leiðina. Þegar niðurstöðurnar liggja fyrir þarf að meta hvaða leið er raunhæfust.

Mikil áhrif á byggðaþróun

Guðmundur segir mikilvægt fyrir byggðalög úti á landi að raforkuflutningskerfið verði skilvirkara. Ekki sé tryggja jafnræði uppbyggingar atvinnulífs víðs vegar um landið vegna flutningstakmarkana. Guðmundur segir smærri byggðarlög þegar hafa farið á mis við tækifæri til uppbyggingar vegna ótryggs rafmagns. Landsnet hafi fengið áskoranir frá sveitarstjórnum víðs vegar um landið um styrkingu kerfisins því það hamli uppbyggingu í núverandi mynd.

Þrjár línur eru sameiginlegar báðum leiðum og er verið að undirbúa þær allar. Þetta eru Blöndulína 3, Kröflulína 3 og lína á milli Kröflu og Akureyrar. Lagning Blöndulínu 3 hefur verið í bígerð í rúm sjö ár en hefur enn ekki orðið að veruleika af ýmsum ástæðum. Auk tafa á Blöndulínu 3 hafa orðið tafir á Suðurnesjalínu 2.

„Þrátt fyrir þessar tafir gerum við ráð fyrir því að fjárfesta fyrir allt að 35 milljarða á næstu árum. Við erum með fjölmörg verkefni um allt land en stóru framkvæmdirnar hafa verið að tefjast,“ segir Guðmundur.

Eignarhaldið til umræðu

Eignarhald Landsnets hefur verið talsvert í umræðunni, en fyrirtækið er að 65% í eigu Landsvirkjunar, 22% í eigu RARIK, 7% í eigu OR og 6% í eigu Orkubús Vestfjarða. Ragnheiður Elín Árnadóttir, viðskipta- og iðnaðarráðherra, hefur til að mynda sagt að hún telji nausynlegt að breyta eignarhaldinu.

„Það hafa verið miklar umræður um eignarhaldið og skiptar skoðanir hjá hagsmunaaðilum,“ segir Guðmundur. Meginlínan í Evrópu sé sú að framleiðendur í samkeppnisumhverfi séu ekki eigendur af orkuflutningskerfum. Hér á landi hafa fyrst og fremst verið ræddar tvær leiðir varðandi breytt eignarhald, annars vegar að ríkið eigi 51% í Landsneti og 49% verði boðin út til almennra fjárfesta og hins vegar að ríkið eignist Landsnet alfarið með beinum hætti en ekki í gegnum önnur ríkisfyrirtæki. Guðmundur segist skilja það sjónarmið að hagsmunaárekstrar geti átt sér stað undir núverandi eignarhaldi en segir lög um Landsnet koma í veg fyrir óeðlilega aðkomu eigenda.

„Það er mjög takmarkað hvaða áhrif eigendurnir geta haft á fyrirtækið og við höfum aldrei orðið var við það að þeir reyni að hafa óeðlileg áhrif á fyrirtækið. Það hefur aldrei komið upp,“ segir Guðmundur. Breyttu eignarhaldi með aðkomu einkaaðila fylgi bæði kostir og gallar en fjárfestar hafi sýnt Landsneti mikinn áhuga.

„Þetta gæti til verið mjög hagkvæmur og öruggur fjárfestingakostur fyrir lífeyrissjóðina,“ segir Guðmundur.

Rætt var við Guðmund í fylgiriti Viðskiptablaðsins um Orku & Iðnað sem gefið var út í gær. Fyrir mistök birtist röng útgáfa af viðtalinu í prentútgáfu Orku & Iðnaðar og biður Viðskiptablaðið Guðmund og Landsnet innilegrar afsökunar á því. Viðtalið hér að ofan er leiðrétt útgáfa.