Farþegum í millilandaflugi Icelandair fjölgaði um 16,1% í maí í ár í samanburði við maí á síðasta ári að því er fram kemur í tilkynnigu til Kauphallar Íslands. Framboð félagsins jókst um 10,6% og salan um 19,5% þannig að sætanýting varð 80% í mánuðinum, sex prósentustigum hærri en í maí í fyrra, þegar hún var 74%.

Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri FL GROUP segir um þessar niðurstöður:
?Fjölgun farþega Icelandair í maí er mjög mikil, íslenski markaðurinn er mjög líflegur og sömuleiðis erum við að flytja talsvert fleiri erlenda ferðamenn til Íslands en í maí á síðasta ári. Fraktflutningar hjá Icelandair Cargo dragast hinsvegar saman, fyrst og fremst vegna minni útflutnings til Bandaríkjanna vegna gengis dollarans."

Á fyrstu fimm mánuðum ársins hefur farþegum Icelandair fjölgað um 11,5% milli ára, þeir eru nú 484 þúsund, en voru 434 þúsund á sama tíma í fyrra. Sætanýting hefur aukist um 3,2 prósentustig, en framboðið á fyrstu fimm mánuðunum var aukið um 8,3% frá því á árinu 2004.

Farþegum í innanlandsflugi Flugfélags Íslands fjölgaði um 3,2 % í samanburði við maí á síðasta ári, og voru tæp 29 þúsund. Á fyrstu fimm mánuðum ársins voru þeir 5,7% fleiri en í fyrra.

Flutningar hjá Icelandair Cargo voru 7,0% minni í maí í ár en í fyrra en hafa samt aukist um 0,3% á fyrstu fimm mánuðum.

Fartímar (block-hours) hjá Loftleiðum-Icelandic voru 31,7% fleiri en á sama tíma í fyrra og á fyrstu fimm mánuðum ársins voru fartímarnir 9,2% fleiri en í fyrra.