Rúmlega 31 þúsund erlendir ferðamenn heimsóttu Ísland í maí síðastliðnum, samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Leifsstöð. Þetta er aukning um 12,5% miðað við maí í fyrra. Þar með er fjöldi erlendra ferðamanna frá áramótum kominn í 104.500 og nemur fjölgunin 7,6%.

Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í maí og þeim fjölgar einnig verulega á milli ára, eða um tæp 13%. Bretar koma þar skammt á eftir, rétt tæplega 5.000 ferðamenn, og fjölgar þeim mest í maí, eða um 23.7%. Norðmönnum fjölgaði um 713 sem er 31,5% og ber fjölgun þeirra ásamt Breta glöggt vitni um fjölgun flugsæta til landsins frá þessum löndum segir í fréttabréfi Samtaka ferðaþjónustunnar. Prósentulega fjölgar Ítölum mest eða um 57,7% í maí en á bak við þá tölu er einungis fjölgun um 168 einstaklinga.

Allt útlit er fyrir að árangur ársins geti orðið all góður sérstaklega með það í huga að tekjur eru nú umtalsvert meiri en áður. Þannig nam meðalendurgreiðsla á ferðamann fyrstu fimm mánuðina kr.767 en var kr. 685 fyrst fimm mánuðina Er þetta auking um rúm 12%. Er hér stuðst við tölur um endurgreiddan virðisaukaskatt í hlutfalli af fjölda ferðamanna á sama tímabili.