Launagreiðendum á Íslandi hefur fjölgað um 659 á tólf mánaða tímabili frá október á síðasta ári til september í ár, að jafnaði, eða sem nemur 4,0% og er meðaltalsfjöldi þeirra nú 17.342. Á tímabilinu greiddu þeir svo 186.300 einstaklingum laun, sem er aukning um 8.600 manns, eða 4,8%, samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr að því er Hagstofan greinir frá.

Enn er mesta fjölgunin í byggingariðnaðinum og í ferðaþjónustunni, en dregið hefur úr hraða hennar, en á sama tíma hefur launþegum í sjávarútvegi fækkað. Launþegum í atvinnugreinum tengdum farþegaflutningum með flugi hefur fjölgað mikið á undanförnum árum segir Hagstofan jafnframt.

Í september 2017 voru 2.631 launagreiðandi og um 12.800 launþegar í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og hafði launþegum fjölgað um 1.600 eða 14% samanborið við í september 2016.

Í september voru 1.858 launagreiðendur og um 28.500 launþegar í einkennandi greinum ferðaþjónustu og hafði launþegum fjölgað um 2.000, sem jafngildir 8% fjölgun á einu ári. Launþegum í heild hefur á sama tíma fjölgað um 6.800 eða 4%.