Um 3600 umsóknir um skólavist hafa borist Háskóla Íslands og er nú verið að vinna úr þeim.  Hluti þessara umsókna, eða rúmlega 700, tengjast nýju menntavísindasviði Háskólans sem hefur starfsemi þegar Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands sameinast hinn 1. júlí nk.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HÍ.

Í mörgum deildum Háskólans er mikil fjölgun umsókna, sem dæmi má nefna lagadeild þar sem aukningin um 40% á milli ára og verkfræðideild þar sem umsóknir aukast um 30%.

Fjöldi umsókna í matvæla- og næringarfræði, sem á komandi skólaári verður staðsett á nýju heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, hefur þrefaldast milli ára og mikil aukning umsókna er einnig í hagfræðideild.

„Í ofangreindum umsóknartölum eru ekki þeir 280 einstaklingar sem nú þreyta inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun, en 48 nýnemar verða teknir inn í læknisfræði og 25 í sjúkraþjálfun,“ segir í tilkynningunni.

„Þeir sem ekki komast að, eiga kost á að sækja um annað nám við Háskólann fyrir 1. ágúst. Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að meirihlutinn nýtir þann möguleika, þannig að umsóknum um skólavist í Háskóla Íslands á enn eftir að fjölga umtalsvert.“

Við þetta bætast síðan hátt í 500 erlendir nemendur sem hefja nám við Háskóla Íslands í haust.

Hér er einungis um grunnám að ræða, BA eða BS nám. Enn liggja ekki fyrir endanlegar tölur um umsóknir í framhaldsnám við Háskóla Íslands en ljóst er að mikil aukning er framundan í bæði meistara- og doktorsnámi, segir í tilkynningunni.