Samrunum og yfirtökum á bönkum í Danmörku fjölgaði úr 10 í fyrra í 13 í ár og fjármálakreppa síðustu mánaða hjálpaði mikið til, segir í frétt Nyhedsbrevet Finans, sem Finansforbundet í Danmörku gefur út. Miðað við fyrri fjármálakreppur hafa fáir bankar fallið hingað til, en ákvæði laga mun ýta undir frekari samruna fjármálafyrirtækja á næstu árum, hefur Nyhedsbrevet Finans eftir prófessor Per H. Hansen við Copenhagen Business School.

Haft er eftir Hansen að á þriðja áratug síðustu aldar hafi um 25 bankar horfið vegna kreppunnar og í byrjun níunda áratugarins hafi fjöldi banka einnig fallið á tiltölulega skömmum tíma.

Aukin reglubyrði ýtir undir samruna

Hansen segir að mörg af smæstu fjármálafyrirtækjunum, með 5-10 starfsmenn, muni verða að sameinast vegna viðameiri lagasetningar og aukinnar reglubyrðar.

Í könnun meðal stjórnenda banka sem gerð var í október sl. kom í ljós að þeir töldu að í upphafi árs 2011 yrðu 105 bankar í Danmörku en í dag eru þeir tæplega 140. Frá árinu 2005 hafa verið 50 yfirtökur og samrunar í danska bankakerfinu, að sögn Nyhedsbrevet Finans.

Erfitt að finna kaupendur að bönkum á borð við FIH Erhvervsbank

Þar segir einnig að greinar í Berlingske Business og Børsen á síðustu vikum gefi til kynna að erfitt sé að finna kaupendur að bönkum á borð við FIH Erhvervsbank, Amagerbanken og Fionia Bank, sem allir hafi orðið illa úti í fjármálakreppunni. Nordea, Saxo Bank og Arbejdernes Landsbank hafi hins vegar lýst áhuga á að kaupa aðra banka, að því gefnu að þeir falli vel að starfseminni.