Gengi krónunnar hefur hækkað verulega síðustu daga gagnvart helstu myntum. Í upphafi mánaðarins stóð gengisvísitala krónunnar í 109,75 stigum en í gær fór hún niður fyrir 106 stig en stóð í lok dagsins í 106,24 stigum. Gengi krónunnar hefur því hækkað umtalsvert á stuttum tíma eða um 3,2% frá upphafi mánaðarins segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Væntingar um frekari mun á innlendum og erlendum skammtímavöxtum í kjölfar hækkunar á stýrivöxtum er helsta skýringin á þessari gengishækkun krónunnar. Útgáfa Peningamála, ársfjórðungsrits Seðlabankans, verður í dag og almennt er reiknað að bankinn tilkynni samhliða hækkun stýrivaxta. Líklegt er að bankinn hækki vexti sína um 0,5 til 0,75 prósentustig segir í Morgunkorninu.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.