Uppsprettan er nýsköpunarsjóður á vegum Haga sem kynntur var á dögunum. Markmið og tilgangur Nýsköpunardagsins er að hvetja til nýsköpunar og aukinnar sjálfbærni í matvælaiðnaði.

„Sjóðurinn hlaut nafnið Uppsprettan þar sem að það má segja að orðið feli í sér  þrennt sem að öflug nýsköpunarverkefni þurfa; góða hugmynd, sem að er vökvuð til vaxtar og upp sprettur sproti í umhverfi sem að leyfir honum að vaxa og dafna,“ segir Sesselía Birgisdóttir, forstöðumaður nýsköpunar- og markasmála hjá Högum.

Hún segir að hlutverk sjóðsins sé að virkja og styðja við frumkvöðla til nýsköpunar og þróunar í íslenskri matvælaframleiðslu. Sjóðurinn leggur áherslu á stuðning við framleiðendur í matvælaiðnaði sem taka tillit til sjálfbærni og styðja við innlenda framleiðslu. Tíu milljónir króna eru til úthlutunar úr sjóðnum 2021. Opið er fyrir umsóknir til 28 maí 2021 og er hægt að nálgast allar upplýsingar á www.uppsprettan.hagar.is

Tilkynnt verður um styrktarhafa þann 11. júní næstkomandi.

Aðspurð um af hverju Hagar séu að stofna nýsköpunarsjóð svarar Sesselía: „Það er mikil gróska í nýsköpun í matvælaiðnaði um þessar mundir, m.a. með stofnun fleiri tilrauna og framleiðslueldhúsa eins og Eldstæðisins. Þar geta frumkvöðlar prófað sig áfram undir faglegri leiðsögn. Hagar vilja styðja með markvissum hætti við frumkvöðla í matvælaiðnaði. Sjóðurinn er liður í því að virkja kraftinn saman. Styrkir verða veittir með því að Hagar forkaupa hlut af framleiðslunni en það er oft það sem að vantar fyrir framleiðendur til þess að komast af stað. Sjóðurinn leggur mikla áherslu á að umsækjendur leggi áherslu á sjálfbærni við framleiðslu, dreifingu og í pakkningum. Verkefni sem að hafa sjálfbærni að leiðarljósi skora hærra í mati á umsóknum.“

Sjóðurinn var kynntur á nýsköpunardegi Haga á dögunum. Streymt var beint frá nýsköpunardeginum og alls tæplega 1800 manns fylgdust með streyminu sem að sögn Sesselíu er mun meira áhorf en gert var ráð fyrir. „Það sýnir að það er mikill áhugi á nýsköpun í matvælaiðnaði. Tækifærin og möguleikarnir eru víða.“