*

mánudagur, 6. apríl 2020
Innlent 18. febrúar 2020 16:34

Mikil hækkun hjá Sjóvá og Reitum

Langmest viðskipti með bréf TM, en Miton seldi allan sinn hlut í félaginu fyrir 1,1 milljarð. Tvö félög lækkuðu í dag.

Ritstjórn

Sjóvá og Reitir hækkuðu langmest í viðskiptum dagsins í kauphöll Nasdaq, bæði í kringum 5% meðan mestu viðskiptin, eða fyrir 1,3 milljarða voru með bréf TM, áður Tryggingamiðstöðvarinnar. Heildarviðskiptin í kauphöllinni í dag námu 3,9 milljörðum króna, og hækkaði Úrvalsvísitalan um 0,77% í dag, í 2.112,96 stig.

Hækkun Sjóvá var í 380 milljóna króna viðskiptum, nam 5,29% og endaði gengi bréfa tryggingafélagsins í 5,29%. Hækkun Reita nam 4,40%, upp í 76 krónur, í 284 milljóna króna viðskiptum, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá jókst hagnaður félagsins á fjórða ársfjórðungi síðasta árs.

Þriðja mesta hækkunin var á gengi bréfa Skeljungs, eða um 3,47%, upp í 9,8 krónur, í 379 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt voru þau þriðju mestu með bréf í einu félaginu í dag. Viðskiptablaðið sagði frá fyrir helgi að hagnaður félagsins nam 3,8 milljörðum króna á síðasta ári.

Eins og áður segir voru mestu viðskiptin með bréf TM, eða fyrir 1,3 milljarða króna. Fréttablaðið sagði frá því í dag að sjóðstýringafélagið Miton hefði selt restina af eignarhlut sínum í félaginu eða 4,3% hlut fyrir hátt í 1,1 milljarð króna. Félagið sendi frá sér uppgjör fyrir helgi en tjón rýrði afkomu þess þó hagnaðurinn hafi þrefaldast milli ára, en annað erlent félag, Landsowne seldi stóran hlut í félaginu snemma í síðustu viku.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf Arion, eða um 559,3 milljónir króna, en gengi bréf bankans stóð samt sem áður í stað í 85 krónum.

Eimskipafélag Íslands lækkaði hins vegar mest, eða um 1,20%, niður í 164,50 krónur, en í litlum viðskiptum þó eða fyrir 809 þúsund kónur. Viðskiptablaðið sagði frá því í dag að félagið hefði fækkað stöðugildum um 14 í hagræðingaraðgerðum.

Eina annað félagið sem lækkaði í viðskiptum dagsins var Icelandic Seafood, sem lækkaði um 0,71%, niður í 9,85 krónur, í 15 milljóna króna viðskiptum. Evran styrktist gagnvart krónunni í dag, um 0,29% og kostar hún nú 137,64 krónur, Bandaríkjadalurinn styrktist um 0,44%, í 127,24 krónur og breska pundið um 0,53%, í 165,70 krónur.

Stikkorð: Eimskip Úrvalsvísitalan Sjóvá Nasdaq Reitir kauphöll