Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 3,14% í dag og endaði í 1,845 stigum. Frá áramótum hefur vísitalan hækkað um 40,77%.

Í dag hækkaði mest gengi bréfa Marel, eða um 11,58% í 1,7 milljarða króna viðskiptum. Í dag var greint frá því að Marel hefði keypt hollenska félagið MPS Meat processing system.

Gengi bréfa Icelandair hækkaði einnig um 1,37% í 923 milljóna króna viðskiptum, og gengi bréfa TM hækkaði um 2,36% í 325 milljóna króna viðskiptum.

Mest lækkaði gengi bréfa Eimskips um 0,98% í litlum 93 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfa Eimskipa var það eina sem lækkaði í dag.

Heildarvelta á hlutabréfamarkaði í dag var rúmir 4 milljarðar króna. Heildarvelta á skuldabréfamarkaði var 3,4 milljarðar króna.

Hlutabréfavísitala GAMMA hækkaði um 3,4% í dag í 3,7 milljarða króna viðskiptum og er þetta mesta hækkun á einum degi síðan í október 2014.

Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,1% í dag í 3,1 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði lítillega í 0,1 milljarða króna viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,3% í 3 milljarða króna viðskiptum.