Norrænir hlutabréfamarkaðir fóru ekki varhluta af hækkun á gengi hlutabréfa beggja vegna Atlantsála í dag í kjölfar þess að leiðtogar aðildaríkja Evrópusambandsins náðu saman um að þrefalda björgunarsjóð Evrópusambandsins og forða Grikklandi frá gjaldþroti í gær.

Kauphöll Íslands.
Kauphöll Íslands.
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)

Takturinn var sleginn á Asíumörkuðum í nótt þegar helstu hlutabréfavísitölur þar ruku upp um 2,0%

Mesta hækkunin á norrænum mörkuðum í dag var á hlutabréfamarkaði í Finnlandi en aðalvísitalan í kauphöllinni í Helsinki hækkaði um 5,72% í dag. Á eftir fylgdi aðalvísitalan í Stokkhólmi, sem hækkaði um 4,71%. Danskir fjárfestar horfðu upp á 3,77% hækkun í kauphöllinni í Kaupmannahöfn og norska hlutabréfavísitalan hækkaði um 3,01%. Minnsta hækkunin í norrænu kauphöllunum var hér á landi en Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,8%.

Gengi hlutabréfa Marel hækkaði mest hér, um 2,88%. Greiningaraðilar segja fyrirtækið hafa skilað ágætu uppgjöri í hús í gær.

Talsverð hækkun var sömuleiðis í stærstu kauphöllunum á meginlandi Evrópu. Í Frakklandi rauk CAC-40 vísitalan upp um 6,28%, DAX-vísitalan í Þýskalandi hækkaði um 5,35% og FTSE-vísitalan í Bretlandi hækkaði um 2,89%

Það sem af er dags hafa helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum hækkað um 3,0% og meira.