Nikkei-vísitalan í kauphöllinni í Tókýó hækkaði um 7,71% í viðskiptum dagsins og hefur ekki hækkað jafnmikið á einum degi frá árinu 2008. Vísitalan hækkaði um 1.343 stig og stendur nú í 18.770 stigum.

Hlutabréfavísitalan hefur, líkt og aðrar vísitölur á Asíumarkaði, lækkað mikið frá byrjun sumars eftir mikla hækkun á fyrri hluta ársins. Í gær lækkaði vísitalan í verði og hafði þá öll hækkun ársins þurrkast út. Hún fór hins vegar aftur hækkandi í dag í kjölfar ummæla Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, um skattalækkanir til handa fyrirtækjum.

Hlutabréf hækkuðu einnig í verði annars staðar í Asíu í viðskiptum dagsins. Shanghai-vísitalan hækkaði um 2,29% og Hang Seng-vísitalan í Hong Kong hækkaði um 4,1%.