Mikil hækkun hefur orðið að undanförnu til einstakra framleiðslufyrirtækja og hefur raforkureikningur Ölgerðarinnar til dæmis hækkað um 17% á milli ára. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður umhverfismála hjá Samtökum iðnaðarins, segist í samtali við Morgunblaðið ekki hafa séð haldbærar skýringar á þessari hækkun.

„Þetta snýst um fyrirtæki sem eru í framleiðslu en eru ekki stóriðja. Raforkukostnaður er stór hluti af rekstrarkostnaði hjá þessum fyrirtækjum, þó að hvert og eitt sé ekki endilega stór viðskiptavinur hjá orkusölum. Mörg eru í samkeppni við innflutning,“ segir hún.

Í svari Landsvirkjunar til Morgunblaðsins kemur fram að aðrir framleiðendur raforku hefðu dregið úr framleiðslu, meðal annars vegna viðhalds á virkjunum. Það hefði því haft áhrif á skammtímamarkað samkvæmt lögmáli framboðs og eftirspurnar.