Í frétt frá Greiningardeild Glitnis segir að það sem af er fjórða ársfjórðungs hafi Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkað verulega eða um 7%. Í nýútgefinni afkomuspá gerðum við ráð fyrir að íslenski hlutabréfamarkaðurinn myndi sýna batamerki á fjórða fjórðungi. Sögðum við að framundan væri tímabil þar sem lækkandi vextir ásamt aukinni áhættusækni og tiltölulega hagfelldu efnahagsástandi innanlands sem utan munu vegast á við áhrifin af nokkuð lakari afkomu félaganna á markaðinum. Um er að ræða áhugaverðan tíma þar sem hræðsla fjárfesta hefur dregið virði einstakra félaga nokkuð langt niður á þriðja fjórðungi og nægjanlega lágt til að skapa kauptækifæri fyrir fjárfesta sem eru til í að taka nokkra áhættu til skemmri tíma.

Ástæða örrar hækkunar í upphafi þessa ársfjórðungs kann að vera sú að fjárfestar hafi séð að umrótið á fjármálamarkaðinum undanfarið hefur alið góð tækifæri á markaðinum. Þeir horfa fram til næsta árs þegar uppgjör félaganna eru ekki eins lituð af erfiðu ástandi á fjármálamörkuðum og uppgjör fyrir nýliðinn fjórðung. Við spáum 30% hækkun Úrvalsvísitölunnar yfir næsta ár.

Um þessar mundir berst lítið af fréttum frá skráðu félögunum. Skammt er þess að bíða að félögin birti afkomu þriðja fjórðungs. Greining hefur dregið úr væntingum til arðsemi á síðari hluta ársins á heildina litið vegna lægri gengis- og söluhagnaðar hjá fjárfestingarfélögunum. Viðsnúningur á hlutabréfamörkuðum hefur þó glætt væntingar okkar um afkomu félaganna því hækkun á verði hlutabréfa hefur afgerandi áhrif á afkomu fjárfestingarfélaganna. (AFÓ)