Mikil uppsveifla hefur verið á breskum hlutabréfamarkaði síðustu vikur eins og Íslandsbanki bendir á í Morgunkorni sínu. Við lokun markaða í gær stóð FTSE 100 vísitalan í rúmum 4700 stigum og hefur ekki verið hærri síðan í júní árið 2002. Vísitalan hækkaði um 2,5% í september og um 3% til viðbótar á fyrstu dögum október. Ýmsir þættir hafa stuðlað að þessari hækkun, væntingar um fyrirtækjakaup, kaup fyrirtækja á eigin bréfum ásamt vangaveltum fjárfesta að vextir í Bretlandi hafi náð hámarki um sinn. Gengi breska olíufyrirtækisins BP hefur hækkað á síðustu vikum vegna hás olíuverðs og hefur það haft jákvæð áhrif á markaðinn.

Í Morgunkorninu er benta á að þau félög sem íslenskir fjárfestar hafa helst haft augsýn á hafa öll hækkað lítillega í verði á síðustu vikum. Fjárfestingarbankinn Singer & Friedlander hækkaði um 4,6% í viðskiptum í gær en bankinn hefur alls hækkað um 7% frá upphafi september. Big Food Group hækkaði um 19% í september, einkum vegna væntinga fjárfesta að Baugur hefði áhuga á að kaupa félagið. Gengi Big Food Group hefur hins vegar lækkað um 3% á fyrstu viðskiptadögum október. Gengi Geest hefur hækkað minnst af þessum félögum en félagið hefur hækkað um 3% í verði frá byrjun september. Hækkun þessara félaga er þó töluvert minni en þeirra skráðu félaga á Íslandi sem þeim tengjast.