Heimshlutabréfavísitalan (MSCI) hefur hækkað um 3,5% síðustu vikuna og hefur nú hækkað um 18,1% frá áramótum. Hins vegar hefur MSCI hækkað um 58% frá lægsta punkti í mars síðastiðnum.

Þetta kemur fram í greiningu frá IFS um erlenda hlutabréfamarkaði. IFS segir nýlega hagvísa í stærstu hagkerfum benda til bata í efnahagslífinu. Mestur hefur gangurinn verið er í mörgum löndum Asíu. Í mörgum löndum á meginlandi Evrópu hefur efnahagsbatinn verið hægari.

Fram kemur að hlutabréf í Noregi (+39%), Svíþjóð (+36%) og Danmörku (36%) hafa hækkað hressilega á árinu þótt mörg félög séu nokkuð lægra verðlögð miðað fyrir ári síðan.

Þannig hafi fjármálafyrirtæki og iðnaðarfyrirtæki hækkað mikið undanfarna mánuði. DnBNor hefur t.a.m. hækkað um 123% frá áramótum, Danske Bank um 153% og Nordea um 70%. Þá kemur einnig fram að ýmis iðnaðarfyrirtæki hafa einnig hækkað mikið undanfarið.

„Margir erlendir greinendur telja að komandi vikur og mánuðir verði ekki eins góðar fyrir hlutabréfamarkaði og verið hefur undanfarið. Þessi skoðun er rökstudd með hliðsjón af hækkandi verðkennitölum á helstu fyrirtækjum,“ segir í skýrslu iFS.

Að lokum kemur fram að af einstökum atvinnugreinum innan MSCI hefur hrávöruiðnaður (e. materials) staðið sig best á árinu. Næst koma upplýsingatækni- og fjármálafyrirtæki og því næst koma næm neytendafyrirtæki.