Bandarísk hlutabréf hækkuðu verulega í verði í síðustu viku. S&P 500 (+3,2%) og Dow Jones (+3,6%) vísitölurnar hækkuðu aðra vikuna í röð en Nasdaq vísitalan (+3,2%) hækkaði þriðju vikuna í röð. S&P 500 vísitalan, sem iðulega er notuð sem mælikvarði á markaðinn í heild, hefur hækkað níu viðskiptadaga í röð og er það lengsta hrina sem vísitalan hefur náð síðan árið 1997. Vísitalan stendur í hæsta gildi ársins um þessar mundir þó vísitalan hafi reyndar sveiflast á tiltölulega þröngu bili allt árið.

Jákvæðar tölur af vinnumarkaði stuðluðu að hækkun á mörkuðum síðari hluta vikunnar en einnig hafði sigur George Bush í forsetakosningum töluverð áhrif. Fjárfestar telja að skattastefna ríkisstjórnar Bush sé hagfelld fyrir markaðinn og efnahagslífið segir í Morgunkorni Íslandsbanka.