Vísitala fasteignaverðs hækkaði um 3% í júlí s.l. frá fyrri mánuði og hefur því hækkað um rúm 12% á síðustu 12 mánuðum. Þetta er töluvert meiri hækkun en var í síðasta mánuði, en vísitala fasteignaverðs hækkaði um 0,5% á milli maí og júní. Þetta er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að velta á fasteignamarkaði dróst verulega saman á milli mánaða. Um 907 kaupsamningum var þinglýst í júní en aðeins 549 í júlí eða nálægt því helmingi færri.

Í Hálffimm fréttum KB banka er bent á að á undanförnum misserum hefur fasteignaverð verið helsti drifkraftur verðbólguþrýstings og væntingar höfðu staðið til þess að hægja myndi á fasteignamarkaði með haustinu. Það var einkum í ljósi þess að velta dróst saman eftir að skipulagsbreytingar gengu í gegn eftir 1. júlí. Hins vegar virðist sem þetta hafi ekki gengið eftir og minni velta hefur ekki orðið til þess að hægja á verðhækkununm á fasteignamarkaði. Þvert á móti hefur hækkanir á fasteignamarkaði verið nokkuð stöðugar frá ársbyrjun 2003 eða um 10-12% á ársgrundvelli segir í Hálffimm fréttum.