Hlutabréf í Bandaríkjunum hækkuðu mikið í dag, annan daginn í röð. Nasdaq vísitalan hækkaði um 1,9%, Dow Jones um 1,6% og S&P 500 um 1,6%. Í WSJ kemur fram að góð afkoma Research In Motion hafi ýtt undir hækkun tæknigeirans og að fjármálageirinn hafi notið góðs af orðrómi um að stór erlendur fjárfestir kynni að kaupa í Merrill Lynch.

WSJ sagði einnig frá því skömmu fyrir lokun markaða að bankarnir sem hafi verið að undirbúa að setja upp sjóð til að leysa vanda fjárfestingarfélaga sem hafi tapað á undirmálslánakrísunni, hafi hætt við áform sín. Bank of America, Citigroup og J.P. Morgan Chase höfðu vegna hvatningar frá fjármálaráðuneytinu unnið að því frá því í september að stofna sjóðinn, en skortur á áhuga mun hafa orðið til þess að bankarnir hættu við. Athyglisvert er að þessar fréttir skuli ekki hafa orðið til að draga úr hækkunum vestra.