Hlutabréf hækkuðu víðast hvar mikið í Asíu í dag og hafa einnig hækkað mikið í Evrópu í morgun. Hækkunin kemur í kjölfar ákvörðunar Bandaríkjastjórnar í gær um að taka yfir Freddie Mac og Fannie Mae, en nokkur spenna ríkti í kjölfar þeirrar ákvörðunar um hvaða áhrif hún mundi hafa á markaði.

Hækkun í Asíu, nema í Kína

Hlutabréf í Japan hækkuðu um 3,4%, í Hong Kong um 4,2% og í Ástralíu um 3,6%. Kína var eini stóri markaðurinn í Asíu þar sem hlutabréf lækkuðu og nam lækkunin tæpum 3%.

Upp um 4% í Evrópu

Í Evrópu hafa hlutabréf hækkað um 4,0% það sem af er degi ef miðað er við Euronext 100 vísitöluna. Úrvalsvísitalan í Kaupmannahöfn ehfur hækkað um 3,1%, í Helsinki um 3,5%, í Ósló um 4,5% og í Stokkhólmi um 4,4%. FTSE 100 í London hefur hækkað um 3,7%, DAX í Frankfurt um 3,0% og CAC 40 í París um 4,3%.