Hlutabréfaverð í Kauphöllinni í Osló hefur hækkað mest af hlutabréfavísitölum kauphalla Norðurlandanna nú þegar ríflega þriðjungur ársins er liðinn, segir greiningardeild Glitnis sem bendir á að aðalvísitölur kauphallanna hafa allar hækkað utan Íslands.

Hlutabréf í Noregi hafa hækkað um 25,3%, mælt í heimamynt og má rekja hækkunina að stórum hluta til olíuverðshækkana.

Hlutabréfaverð í Kauphöllinni í Helsinki hefur hækkað um 17,2% frá áramótum. Nokia hefur hækkað um 16,4% það sem af er ári og vegur þungt í úrvalsvísitöluna en Nokia er stærsta einstaka félagið í Kauphöllinni í Helsinki.

Hlutabréfaverð í Kauphöllinni í Stokkhólmi hefur hækkað um 8,9%.

Kauphöllin í Kaupmannahöfn hefur ekki staðið sig eins vel og nemur hækkunin 2,3% frá áramótum.

Hlutabréfaverð í Kauphöll Íslands hefur lækkað um 1% . ?Hlutabréfaverð á Íslandi hefur ekki hækkað undanfarna daga þrátt fyrir mjög góð uppgjör. Við spáum því að eftir því sem líður á árið muni verðið hækka og muni hækkunin nema 20% á árinu 2006," segir greiningardeild Glitnis.