Hlutabréf hækkuðu mikið í Asíu í dag, eða um 4% samkvæmt DJ Asia-Pacific vísitölunni. Hækkanirnar eru til marks um ánægju fjárfesta með að útlit er fyrir að ríkisstjórnir muni auka örvandi aðgerðir til að bægja frá efnahagshruni, að sögn MarketWatch. Lyfjaframleiðendur leiddu hækkanir í Tókýó en orkufyrirtækið Santos leiddi hækkanir í Sydney, vegna frétta um að það kunni að verða tekið yfir.

Í Hong Kong hækkuðu hlutabréf um 7,5% vegna umræðu um frekari aðgerðir frá Kína til að styðja banka og markaði og ýta undir einkaneyslu, að sögn Reuters. Í Sjanghæ hækkuðu hlutabréf um 4,1%, í Japan um 5,2% og í Singapúr um 0,9%. Í Ástralíu hækkuðu hlutabréf um 4,1%.