Eins og áður hefur komið fram hafa hlutabréf hækkað verulega í Evrópu í dag en að sögn Reuters má rekja hækkanir dagsins til tiltrú fjárfesta á björgunaraðgerðum stærri Evrópusambandsríkja í morgun.

FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði í dag um 9,2% og hefur aldrei áður hækkað jafn mikið á einum degi að sögn Reuters. Síðasta vika var sú versta í sögu vísitölunnar þegar hún lækkaði um rúm 20% á einni viku.

Bankar og fjármálafyrirtæki hækkuðu flest í verði í dag en leiddu þó ekki hækkanir dagsins. Hækkandi hrávörukostnaður, til að mynda verð á málm og kopar gerði það að verkum að félög á borð við Anglo American hækkaði um 13% í dag og Rio Tinto um 12,5% svo dæmi séu tekin.

Þá hefur olía einni hækkað í verði og í kjölfarið hækkaði BP um 11% en Total og Shell um 10% í dag.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 8,3%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 10,5% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 11,4%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 11,2% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 11,4%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 8,5%, í Osló hækkaði OBX vísitalan um 6,4% og í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 8,8%.